Aðstoð

Ef greining á vandamálinu er þess eðlis að hægt sé að lagfæra ökutækið á staðnum er sérhæfður þjónustuaðili sendur á staðinn. Oft er um þjónustubifreið að ræða en einnig er stundum sendur bílaflutningabíll á staðinn til að hafa möguleika á að flytja ökutækið ef viðgerð á staðnum tekst ekki.

 Vandamálin geta verið mismunandi. Algeng vandamál sem allir þjónustuaðilar geta leyst úr á staðnum eru margvísleg, t.d. þessi:

  •  Geymir dauður: Þótt geymir hafi tæmst er yfirleitt hægt að gefa start. Ekki má drepa á ökutækinu fyrr en kannski klukkutíma síðar, eða þar sem hægt er að fá start eða viðgerð (nýjan geymi).
  • Sprungið dekk eða loftleysi (varadekk til staðar): Aðstoðað við að skipta um dekk eða setja loft í dekkið (ef það er þekkt að loft lekur úr dekkinu).
  • Eldsneytisleysi: Komið er með eldsneyti í brúsa og fyllt á. Ökutæki gangsett og tryggt að það komist a.m.k. að næstu bensínstöð.
  • Hurðir/læsingar frosnar: Við ákveðnar aðstæður er ekki hægt að koma lykli í skrá eða hurðir geta límst aftur. Hjálpað við að opna.
  • Þaklúga lokast ekki: Lúgunni lokað handvirkt eða gati lokað og þétt til bráðabirgða.
  • Brotin hliðar- eða afturrúða: Hjálpa við að loka og þétta til bráðabirgða. 

Önnur vandamál, sem sjaldnar koma upp, eru á færi ákveðinna þjónustuaðila að lagfæra, annars er boðið upp á flutning á næsta verkstæði. Þau eru t.d. þessi:

  • Bíll læstur: Ef lyklar eru læstir inn í bíl eða þeir hafa týnst er hjálpað við að opna.
  • Rúðuþurrkum stolið/brotnar: Aðstoðin felst í að útvega nýjar og skipta um.
  • Öryggi sprungið: Öryggi sem hefur áhrif á akstur, t.d. virka ekki ljós eða einhver öryggisbúnaður. Nýtt öryggi er útvegað og aðstoðað við að skipta um.
  • Hjólum stolið eða varadekk ekki til staðar: Útvega ný dekk og felgur.

Fleiri vandamál geta komið upp og þá er bara að hringja og afla upplýsinga um hvað hægt er að gera.